Sigtryggur Þorláksson ritar eftir minni ágúst 2017
Eitt af þeim störfum sem ég hefi tekið að mér eða ég hef lent í er formennska í sóknarnefnd. Ég tók þetta starf alvarlega, gerði mest sjálfur það sem gera þurfti. Hafði reikningshald og sá um allt viðhald og allan undirbúning fyrir messur og allar athafnir í kirkjunni. Ein messa er mér sérstaklega minnisstæð. Eins og kunnugt er var Svalbarði þjónað frá Raufarhöfn á tímabili. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup var einu sinni kosinn prestur á Raufarhöfn og þjónaði þá Svalbarði líka. Þetta var fyrsta messan hans hjá okkur sem er mér svona minnisstæð.

Ég var vanur því að fara alltaf út í kirkju að morgni messudags til þess að undirbúa messuna og sjá um að allt væri í lagi. Þar á meðal var að prófa orgelið en það átti það til gaula þegar mikill raki var í loftinu. Þrútnuðu stundum trépinnar sem nóturnar þrýstu á og komu ekki upp aftur eins og þeir áttu að gera. Þá varð ég að pússa til pinnana eða taka burt nóturnar sem gauluðu. Það var skárra að þær þegðu heldur en að þær gauluðu alltaf.

Þennan dag prófaði ég orgelið, opnaði alla takka og heyrði að allt var í lagi, en ég gleymdi að loka þeim aftur. Organistinn[1] kom á síðustu stundu og stillti orgelið en gáði ekki að því að hann lokaði þeim tökkum sem áttu að vera opnir. Svo byrjaði hann að spila forspilið. Þá rak orgelið upp einhvers konar skræk og honum féllust hendur en byrjaði samt aftur og spilaði forspilið. Ég var frammi við dyr að hringja klukkunum en vissi auðvitað upp á mig skömmina en gat ekkert gert fyrr en ég kom inn í kórinn þá sagði ég honum (organistanum) hvers kyns var og hýrnaði þá yfir honum. Þegar forspilinu var lokið þá varð þögn. Prestur tvísté fyrir altarinu. Mig grunaði þá hvað að væri, hann beið eftir bæninni. Ég fór þá til hans og sagði honum að prestar okkar hefðu alltaf lesið bænina sjálfir og það væri því enginn tiltækur til þess svo hann yrði að gera það. Það var auðvitað í góðu lagi, og þar með hélt messan áfram og var orgelið þá komið í gott lag. Þá kom að því að prestur fór í stólinn en hann stiklaði þar og hummaði en kom ekki upp nokkru hljóði. Meðhjálpari[2] sat rólegur því að hann var heyrnarlaus. Ég þóttist sjá hvað að presti gekk, ég fór því og tók vatnsglas sem var á altarinu og rétti honum það upp í stólinn, þá hýrnaði yfir honum og þá losnaði um málbeinið þegar hann var búinn að fá sér vatnssopa. Eftir þetta gekk messan hnökralaust.

[1] Organisti var Þórarinn Krisjánsson í Holti
[2] Meðhjálpari var Eggert Ólafsson í Laxárdal.