Snjóaveturinn 1935-36

Snjóaveturinn 1935-36

Sigtryggur Þorláksson skrifaði eftir minni  í janúar 2017

 

Það snjóaði og snjóaði. Veðrin voru lengst af mild, lítið frost og lítið um hvassviðri – hæg norðaustanátt ríkjandi. Það hefur sjálfsagt byrjað snemma vetrar að snjóa því að bændur sem bjuggu lengra frá sjó urðu svo snemma heylausir. Á þeim tímum var fé beitt allan veturinn, ef þannig viðraði. Tún voru lítil og þýfð. Engjar eru reytingssamar hér á Svalbarði og víðast hvar annarsstaðar í sveitinni. Á sjávarjörðunum gengu ærnar í fjörunni og komust af með lítil hey, ánni var jafnvel ætlaðar hálfur baggi í ásetningi til vetrarins. Þennan vetur var hjá okkur Bjarni Benediktsson sem átti heima á Bjarnastöðum í Axarfirði. Hann var ráðinn fjármaður og gætti ánna við sjóinn. Fjármaður var alltaf ráðinn frá vetrarbyrjun fram að sumardeginum fyrsta. Bjarni hafði með sér 30 ær og var fóður þeirra kaup hans. Bjarni var góður fjármaður. Ég held að pabbi hafi verið með um 300 ær á þessum tíma. Þegar kom fram á þorranum kom Árni Kristjánsson, sem bjó þá á Grímsstöðum til okkar með ær sínar, kannski milli 30 og 40, var þá orðinn heylítill. Hann fékk að hafa sínar ær heima og reyndi að beita þeim inn með ánni og á Staðarásinn þegar einhverjar þúfur stóðu uppúr. Honum fórst vel að fóstra ærnar og var ekki frekur á fóðrið. Það var svo síðar um veturinn, hefur sennilega verið komið fram á góu, að Þóroddur Björgvinsson í Borgum kom með sínar ær um 70 talsins. Þær voru hafðar við sjóinn þótt ekki væri hús yfir allt þetta fé.

Þessi vetur var líka eftirminnilegur vegna þess að það rak mikið af spýtum á fjörur. Pabbi sagði að það hefði oft verið gaman að koma að sjónum á morgnana og sjá hvað hafði bæst við frá deginum áður. Spýtunum var bjargað upp úr fjörunni nokkurn veginn jafnóðum og fluttar heim eins og hægt var. Það þurfti að flytja hey heiman að og svo spýtur á sleðanum til baka. Þetta voru tré um það bil 6 metrar á lengd – þrjár stauralengdir – eins og talað var um. Trén voru merkt á endanum og höfðu ekki verið lengi í sjó. Það var greinilegt að einhvers staðar hafði brostið stífla – sennilega í Rússlandi eða Noregi, það var svo farið í það seinnipartinn vetrarins að saga spýturnar. Það var byggð aðstaða í hlöðunni sem stóð á Bensahólnum – byggð 1930 – fyrir sögunina. Sagað var með svokallaðri tvískeftu – þannig að annar maðurinn var uppi og hinn niðri. Þetta gekk furðuvel ef sögin var beitt og sögunarmennirnar samhentir. Pabbi, Þorlákur Stefánsson, hafði ákveðið að byggja nýtt íbúðarhús um sumarið 1936 og var sagað í alla stórviði í húsið þarna um veturinn. Þóroddur var aðalmaðurinn við sögunina, mjög duglegur og útsjónarsamur. Allur þessi rekaviður nýttist í byggingar og girðingar smám saman.

Árni á Grímsstöðum fór alltaf heim aðra hverja helgi til að vitja um fjölskyldu sína og hafa fataskipti. Skipti hann engu hvernig veður var. Hann fór jafnt þótt það væri kafalds hríð og enginn kennileyti að styðjast við og jafnvel náttmyrkur. Alltaf rataði Árni.

Það byrjaði að hlána í lok vetrar. Þá rak Árni sínar ær heim – sagði að það væru komnir einhverjir rindar upp úr snjónum í fjallinu sem hægt væri að beita á. Hann hafði verið það forsjáll að hann hafði haft hey heima handa gemlingum og kúnni.  Bjarni fjármaður ákvað að leggja af stað með sínar ær inn yfir Axarfjarðarheiði á sumardaginn fyrsta. Þá var asahláka og dálítið farið að auðnast. Hann fór út að sjónum um morguninn og var kominn með ærnar heim um hádegið og rak þær vestur yfir Svalbarðsána á Skipakílnum sem kallaður er. Þar byrjar Svalbarðsá að leggja á haustin og þar fer ísinn síðast af á vorin.

Bjarni kom svo heim til að fá sér hádegismat, en þegar hann kom aftur út var ísinn farinn af ánni. Þá var úr vöndu að ráða. Ærnar voru vestan við ána í Lögréttunesinu, en eigandinn austan við en áin bráðófær á milli. Það varð úr að pabbi fór með Bjarna á hesti inn með ánni. Pabbi vissi að áin breiddi úr sér á eyrunum utan við Svalbarðssel og þar fór hann yfir á hestinum og lét Bjarna fara þar yfir og reka hestinn til baka. Þannig leystist þetta. Bjarni rak síðan ærnar inn yfir heiðina þótt það sæi varla á dökkan díl og allt gekk vel.

Þóroddur hefur verið farinn áður með sínar ær. Ég man ekki eftir neinum sögum af því. Þóroddur var svo hjá okkur áfram við að saga og undirbúa húsbygginguna.