Ísbjörn á Eldjárnsstöðum
Sigtryggur Þorláksson ritaði eftir minni í febrúar 2017
Veturinn 1918 var kallaður frostavetur. Hafís rak að landi strax í janúar eftir samfelldar stórhríðar í marga daga. Ísinn fraus saman, urðu alveg hafþök. Ísbirnir gengu á land, þar á meðal á Melrakkasléttu og Langanesi.
Það mun hafa verið á útmánuðum að ísbjörn kom í Eldjárnsstaði á Langanesi. Vinnukona var að sýsla við búverk er hún varð þess vör að ísbjörn var kominn inn í bæinn. Hafði hann farið inn í búr sem var nærri útidyrum. Var hann þar að snudda í mat, hafði étið úr grautarpotti sem nýbúið var að sjóða handa fólkinu.
Á Eldjárnsstöðum var tvíbýli eins og viðgekkst víða á bæjum á þeim tíma. Fjölskyldurnar bjuggu í sama bænum. Inngangur var niðri, eldhús, búr, geymslur og fleira var á neðri hæð, en baðstofa og svefnaðstaða uppi á loftinu. Fólkið var þarna uppi nema fullorðnir karlmenn sem voru úti í fjárhúsunum við gegningar.
Vinnukonan var fljót að hugsa og rösk. Hún snaraðist fram hjá búrdyrunum, skaust upp á loftskörina og varaði fólkið við hættunni. Síðan hljóp hún út í fjárhús – það varð uppi fótur og fit. Bændur vígbjuggust, tóku broddstafi og heygafla til að mæta bangsanum. Þau héldu nú heim að bænum og var björninn enn inni, en hann varð var við fólkið þegar það kom heim, og snaraðist hann út um búrgluggann og tók með sér karminn. Það stóð heima að fólkið var að komast inn úr dyrunum þegar björninn kom. Annar bóndinn hrasaði í kvosinni og í sama mund beit hundurinn í hælinn á birninum. Hann sneri sér þá við og sló hundinn í rot. Fólkinu tókst að kippa þeim sem hrasaði inn og loka dyrunum. Þau sem úti voru flýttu sér upp á loftið og bændur fóru að huga að byssum sínum. Þetta voru gamlir framhlaðningar sem ekki höfðu verið notaðir lengi. Þeir byrjuðu á því að setja knelluna í og svo slatta af púðri í hlaupið. Þá kom forhlað, kannske bréfkúla og svo höglin og síðast annað forhlað. Þetta var svo þjappað með krossa, það er smá prik sem kemst inn í hlaupið. Þeir gátu svo skriðið upp á þekjuna á bænum. Björninn lá og át hundinn, hann reis upp til hálfs þegar hann varð mannanna var og urraði eitthvað. Það varð svo úr að skotin gengu úr byssunum og þeir gátu fellt björninn. Þá er nú sögunni eiginlega lokið.
Þetta er eins og hún hefir geymst mér í minni. Mamma sagði okkur þessa sögu oftar en einu sinni. Hún var fædd á Skálum 1879 en fluttist í Eldjárnsstaði á fyrsta ári óskrírð. Mamma var því allri húsaskipan kunn á Eldjárnsstöðum. Hún var þarna þar til að fjölskyldan fluttu í Ytri-Brekkur og var þá 7 ára.
