Tundurdufl í Þistilfirði

Tundurdufl í Þistilfirði

Safnari: Aldís Gunnarsdóttir

Viðmælandi: Sigtryggur Þorláksson

 

Það var nú þannig að vorum hér alltaf með fjárborg út við sjóinn og þar voru ærnar hafðar allan veturinn og farið til þeirra alltaf. Fjármaðurinn gekk yfirleitt alltaf þangað úteftir og og gaf og eða rak féð upp til beitar. Nú ég hirti  þær þennan vetur og einu sinni þegar ég kom úteftir þá var eitthvað ferlíki í fjörunni rétt neðan við borgina og kom upp að þetta var þá tundurdufl. Maður var náttúrulega afskaplega forvitinn á þeim tímum og ég man nú ekki hvort það var fyrsta daginn alveg en smám saman þá varð maður nú ekkert hræddur við þetta neitt og ég fór og skrúfaði af því svona einhverja hala sem stóðu útúr þessu [hlær] og þetta var þarna allan veturinn í fjörunni. Um sumarið þá var fenginn maður, austan af fjörðum held ég, til að gera þetta óvirkt. Þetta var þá alveg virkt allt saman og ég náttúrulega heppinn að hafa ekki getað sprengt það.

Í annan stað var það, það hefur sjálfsagt verið sama veturinn, það var norðan hvassviðri og ég sá að það kom eitthvert flykki siglandi utan af sjónum og stefndi í land þarna dálítið austan við borgina. Nú ég náttúrulega fór að forvitnast um hvað þetta væri og þetta rak upp í stórgrýti þarna rétt hjá Króklæk sem kallaður er. Nú ég þorði nú ekki alveg fram á bakkann og fór nú aldrei alveg fram í fjöru en ég sá náttúrulega þegar þetta kom þarna upp að þetta var tundurdufl. Ég átti nú  ekkert við það neitt en það var ekki löngu seinna sem það tók út aftur og hafði rekið þarna austur í Hjálmanesið og sprakk þar. Ég sá bara ummerkin  eftir það. Ég held að við höfum nú orðið vör við samt dynk hér heima. Þetta hefur verið svona um 1948. Við tókum þetta svo og fórum með þetta hérna heim, héldum að við gætum notað þetta eitthvað kannski og það er ennþá til sýnis hér.

Innan í þessu var svona tunna, líklega um 40-50cm, sem að sprengiefnið var í. Þeir höfðu einhvern veginn opnað þetta og kveiktu í, og gátu þá kveikt í sprengiefninu og þá logaði það þegar það var frjálst loftflæði og tunnan var bráðin alveg niður að miðju. Það var svo mikill hiti af því.

img_0142
Tinni og Garpur við tundurduflið á Svalbarði

Tundurdufl springur í fjörunni á Gunnarsstöðum

 Þá var ég í barnaskóla á Gunnarsstöðum. Það var seinnipart vetrar að ég fór með syni bóndans , Árna syni Jóhannesar á Gunnarsstöðum og Aðalbjargar, að reka gemlinga á beit útá Gunnarsstaðaásinn. Þegar við vorum komnir þarna utarlega á ásinn, þetta var á Sunnudagsmorgni svona í góðu veðri þá kom þessi ógnarhvellur og við litum þar niðurfyrir og sáum þar strókinn sem stóð uppúr fjörunni, grjótstrjókinn. Það kom svona loftþrýstingur náttúrulega og hann var það mikill að  bróðir minn sem var að gefa hér kindum uppí fjárhúsi [á Svalbarði] sagði að það hefði fallið strá úr þakinu á hlöðunni. Hann heyrði hvellinn náttúrulega og og dynkurinn var svona, loftþrýstingurinn, að það hristist eitthvað hús hér meira að segja. Þetta var heilmikil sprening og svo fórum við  þarna [á Gunnarsstöðum], ég þorði nú ekki að fara þarna niðureftir alveg strax en fórum seinna um daginn. Þá var kennarinn, Nanna Eiríksdóttir frá Grasgeira, með okkur og allir skólakrakkarnir að skoða ummerkin.

 

Advertisements