Ágrip af sögu samkomuhússins á Svalbarði

Ágrip af sögu samkomuhússins á Svalbarði

Sigtryggur Þorláksson

skrifaði eftir minni

árið 2016

 

 

Svalbarð hefur um langan aldur verið þingstaður sveitarinnar þ.e. Svalbarðshrepps eða Þistilfjarðar.  Þar er einnig kirkjustaður sveitarinnar.

Þegar ég var að alast upp var sérstakt þinghús á Bensahólnum, en það er sléttur grasbali austur af bænum. Þinghúsið var byggt úr torfi um það bil mannhæðar háir veggir, á þrjá vegu en timburstafn. Mig minnir að það væri bárujárnsþak. Húsið var þiljað innan með panel og gólf var úr timbri. Tveir gluggar voru á timburstafninum. Þetta var hið vistlegasta hús þurrt og þokkalegt. Þar voru haldnir fundir, manntalsþing – hreppamót vor og haust svo nokkurt sé nefnt.

Ég man eftir því að prestur flokkaði þar ullina þegar búið var að þvo hana og þurrka. Það gerðum við einnig eftir að pabbi flutti í Svalbarð. Þetta var mjög þrifalegt verk og skemmdi ekki neitt. Ég man eftir því að einhverntíma sagði prestfrúin frá því að fólkið sem var að flokka ullina hefði verið allt steinsofandi í ullinni þegar hún færði þeim kaffið. Það var notalegt að sitja í ullinni. Árið 1938 var þinghúsið orðið hrörlegt og gat ekki almennilega þjónað sínu hlutverki. Þá var farið að ræða um að byggja nýtt þinghús. Málið var rætt á ýmsum stöðum, þar á meðal hreppsfundum og sitt sýndist hverjum. Ég man eftir því að á einum hreppsfundi sagði einn ágætur bóndi að það hefði verið ljóta slysið að nota ekki tækifærið þegar byggð var stofa úr steinsteypu við gamla torfbæinn á Flögu, að byggja ekki samkomuhúsið ofan á stofuna. Þarna var farið að tala um samkomuhús eða félagsheimili en ekki þinghús. Niðurstaðan varð því sú að byggja á Svalbarði. Það var svo árið 1938 að ákveðið var að byggja samkomuhúsið. Að framkvæmdunum stóðu auk hreppsins, Kvenfélag Þistilfjarðar og ungmannafélagið Afturelding. Ekki veit ég hverjir hönnuðir hússins eru. Þórarinn Ólafsson í Laxárdal var ráðinn byggingarmeistari. Sennilega hefur hann aðallega teiknað húsið. Á þeim árum var ekkert hugað fyrir vatnslögn eða frárennsli. Það var ákveðið að byggja alla veggi úr steinsteypu. Veggir voru ekki einangraðir en svolítið rúm var á milli veggjar og þilja og átti það að duga sem einangrun.

Undir öðrum endanum er kjallari. Þar voru bornar fram veitingar og hluti af kjallarnum var geymsla. Kjallarinn var að hálfu leyti niðurgrafinn. Inngangur í húsið var í sama endanum sem kjallarinn var og því þurfti að steypa allháar tröppur að útidyrum. Á tröppunum voru engin handrið og man ég ekki eftir því að það kæmi að sök.

Gamla þinghúsið var rifið og gólfið dregið á hestum þangað sem samkomuhúsið átti að rísa og notað til þess að hræra steypuna á því. Þetta var furðu sterkur pallur. Steypan var öll hrærð í höndunum. Mölin var mæld í fötum á pallinn – kannski 7 fötur af möl og ein af sandi á móti einni fötu af sementi. Þetta var svo hrært í höndunum– þrjár ferðir þurrt og síðan var bleytt í og hrærð eina ferð blaut, þá var steypan tilbúin. Henni var síðan mokað í fötur og borin í mótin. Þetta var mikið verk og erfitt. Mig minnir að sveitungarnir ynnu mikið í sjálfboðavinnu við þetta steypuverk. Einn dagur var mér sérstaklega eftirminnilegur. Ég var þá á 10. Ári og var mikið að sniglast á byggingarstaðnum. Það var um miðjan ágúst. Steypumenn voru að hræra á pallinum.  Bróðir minn sem var 2 árum eldri en ég og annar álíka gamall flugust á í malarhaugnum. Þá tókum við eftir því að þar kom fólksbíll niður með Brekknakotsbrekkunni sunnan við bæinn. Bílinn hvarf á bak við vegamelinn en kom aftur í ljós og niður Garðstungunesið. Það varð hálfgert verkfall því þetta var sjón sem ekki hafði sést áður. Þarna var á ferð Friðjón Jónsson frá Hrauntanga. Menn jöfnuðu sig fljótlega eftir undrunina og tóku til við steypuvinnuna. Húsið var gert fokhelt um haustið og innréttað um veturinn. Gólfbitar voru sagaðir heima úr rekavið.

Fyrsta samkoman sem haldin var í húsinu fór fram 1. september 1939. Þegar aðgöngumiðar voru gerðir var rætt um  það að setja á bakhliðina: „Stríðið – hafið“. Því heimstyrjöldin hófst einmitt þennan dag. Miðarnir voru búnir til sama daginn og samkoman var haldin, þeir voru bara handskrifaðir heima. Það varð svo hefð að halda samkomu á Svalbarði um mánaðarmótin ágúst og september. Bæði var að það var farið að dimma nótt og oft uppstytta um þetta leyti ef illviðri höfðu verið.

Skemmtiatriði voru ekki fjölbreytt. Samkoman var yfirleitt sett með smá ræðustúf. Það var reynt að fá einhvern ræðumann en aðalskemmtunin var dansinn. Þegar mikið var haft við voru Ormalónsbræður beðnir að spila fyrir dansinum. Það var reynt að fá einhvern eða einhverja til að selja kaffi, unglingar tóku sig oft til og tíndu bláber og seldu í bollum.

Þessar síðsumars samkomur urðu það vinsælar að tilgangslítið var að boða til samkomu annarsstaðar í sýslunni á sama tíma. Það kom í hlut ungmennafélagsins að sjá um sumarsamkomurnar. Ungmennafélagið starfaði talsvert á þessum árum. Fundir voru haldnir í samkomuhúsinu sem og smáböll að vetrinum. Hreppsfundir voru auðvitað haldnir þar og kvenfélagsfundir. Einnig voru erfidrykkjur haldnar í  samkomuhúsinu.

Það kom að því að mönnum þótti kalt í húsinu, að vetrinum var því settur olíuofn í salinn og hitaði hann nokkuð út frá sér. En hann var auðvitað stórhættulegur. Því óhægt var um vik að komast út ef kviknað hefði í út frá honum, en til allrar lukku kom aldrei til þess.

Það var snemma farið að uppfæra leikrit í húsinu. Í upphafi skiptust sveitahlutarnir austur og vestur á um að leika. Seinna var stofnað leiklistafélag Þistilfjarðar og tók þar þá við að uppfæra leikrit venjulega á hverjum vetri.

Ég man ekki eftir því að það yrðu slys á þessum samkomum sem haldnar voru í samkomuhúsinu en það brann einu sinni bíll læknisins á hlaðinu skammt frá húsinu, en menn skemmtu sér bara við að horfa á brunann. Þetta var willys jeppi sem læknirinn átti að reyna hvort hann hentaði í strjálbýlum héruðum. Auðvitað var skaði að því að missa læknisbílinn. Læknirinn var búinn að fara á jeppanum allskonar vegleysur.

Einu sinni sóttum við um leyfi til þess að stækka samkomuhúsið. Fjárhagsráð synjaði þeirri beiðni. En seinna kom að því að það var farið að byggja við húsið. Var þá byggt anddyri og snyrtikompur norðanundir húsinu. Sá Vigfús á Syðra-Álandi aðallega um framkvæmdina. Var þá líka leitt vatn í húsið. Voru tröppurnar brotnar og steypt upp í gömlu útidyrnar. Stiginn niður í kjallarann var tekinn niður úr anddyrinu eins og hann er nú.

Þegar barnaskólinn var byggður varð hlutverk samkomuhússins allmiklu minna og var það þá tekið undir refaskinnaverkun. Þar með var ekki hægt að nota það neitt annað á tímibili. Skinnaverkunin stóð þó ekki mörg ár því refaræktin fór á hausinn eins og búast mátti við. Eftir það stóð húsið ónotað þangað til hugmyndir um forystukindasetrið skaut upp kollinum.  Að undirlagi Daníels Hansen  skólastjóra var stofnað félag um varðveislu þekkingar um forystufé og að koma upp safni í því sambandi. Gáfu eigendur samkomuhússins þessu félagi húsið til þessara nota. Var þá hafist handa við að safna peningum og ráðist í að endurbyggja húsið og er þarna komið til ágætasta safn sem dregur að sér allmikið af gestum.

Advertisements

One thought on “Ágrip af sögu samkomuhússins á Svalbarði

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s