Mannskaðaveðrið 25.janúar 1949

Vilhjálmur Þorláksson ritar eftir minni 21.12.2016

 

Veturinn ´48-49 vorum við 4 bræður hérna á Svalbarði. Jón Erlingur (f. 1926) hafði lokið stúdentsprófi frá MA vorið áður og var nú hérna heima þennan vetur til að búa okkur Stefán (f. 1930) og mig Vilhjálm (f. 1933) undir inntöku í MA.  Stefán í 3.bekk og mig í 2.bekk. Frænka okkar Herdís Guðmundsdóttir frá Syðra-Lóni fékk að gerast nemandi ásamt okkur Stefáni. Við unnum líka jafnhliða ýmis störf við búskapinn. Sigtryggur (f.1928) gætti fjár um veturinn en hann tók við búinu síðar. Kennsla Jóns dugði okkur vel og er mér minnisstæð. Hann kenndi af skýrleika og ánægju. Goðafræði Snorra Eddu varð að skemmtilestri og algebran að leik. Vísurnar úr Eglu og Njálu lifa enn í huga manns.

                Einn morgun í janúar fór Sigtryggur eins og aðra daga að sinna fénu sem var haft á beitarhúsum (fjárborg) um háveturinn 4km norðaustur af bænum. Var hann væntanlegur heim skömmu eftir hádegið. Skyggni var ekki slæmt en nokkur snjór á jörð. Fyrir hádegið fór að hvessa að norðaustan og uppúr hádegi var kominn öskubylur og ekkert skyggni. Við hérna fórum nú að hafa áhyggjur af Sigtryggi. Klukkan 2-3 fór veðrinu að slota og lögðum við Jón þá af stað gangandi í átt að fjárborgunum. Þegar við höfðum gengið 1km var komið gott veður en allt var hvítt og sást enginn sjóndeildarhringur og ekkert nema stjörnur hátt á himni. Jón hafði lært vel (hjá de. Sveini í MA) að þekkja stjörnurnar og þar með Pólstjörnuna. Við töldum okkur nú geta giskað á hornið sem stefna á borgirnar myndaði við norðurstefnuna á Pólstjörnuna og rötuðum nú nokkuð beint á fjárborgirnar. ummerki voru þar eðllileg, Sigtryggur hafði sinnt fénu og farið. Slóðir gátum við ekki rakið. Við töldum að hann gæti hafa stefnt á bæinn Flögu sem er í 3km fjarlægð þaðan til suðausturs. Við tókum nú stefnuna þangað eftir miði á Pólstjörnuna og hittum á túngirðinguna í Flögu. Ferðin gekk vel, en þungfært var og við orðnir svangir og þreyttir. Við fengum hressingu í Flögu en jafnframt slæmar fréttir. Elsti sonur hjónanna, Sigríðar og Jóhannesar, Björn Jóhannesson jafnaldri Sigtryggs og væntanlegur bóndi á Flögu hafði farið til fjár um morguninn en var ókominn heim en nú var komið kvöld. Enginn sími var á bæjunum á þessum tíma nema á Garði (3km suðvestur af Svalbarði) þar var símstöð. Við höfðum því engar fregnir af Sigtryggi og héldum fljótt heimleiðis (6km leið) og tókum mið af stjörnunum. Þegar heim í Svalbarð kom um miðbik nætur voru fréttir komnar af Sigtryggi. Hann hefði ekki náð áttum í óveðrinu en tekið stefnuna vestur með sjónum og komið í Sjóarland í 4km fjarlægð frá fjárborginni og fékk fylgd þaðan heim.

Við Jón fengum okkur nú mat, og man ég ekki eftir að hafa verið jafn matarþurfi í annað sinn, og lögðum okkur í eina 3 klukkutíma. Þá var kominn Einar frá Sjóarlandi. Við gengum þá þrír austur að Flögu og náðum þangað um birtingu. Þá hafði heimilisfólið ekki frétt neitt af Birni og fórum við Jón ásamt Þóri, mági Björns og Einari að leita. Við gengum suður með Sandá eina 3 km þangað sem Björn hafði verið með féð. Þá sáum við slóðir eftir féð en það virtist hafa hrakist undan veðrinu. Sumt af því hafði lent í Sandá og drukknað. Brátt sáum við spor eftir Björn og lá slóðin í norð-norðaustur í stað norður, sem var áttin að Flögu. Við fylgdum slóðinni eina 4km og fundum Björn helfrosinn liggjandi á bakinu á svelli og sat hundur hans hjá honum. Þetta var um það bil miðja vegu milli Flögu og Svalbarðs. Við Jón héldum þá í Svalbarð.

                Ég læt nú Sigtryggi eftir að ljúka þessari frásögn. Ég var 15 ára unglingur og greyptust þessir atburðir í huga minn.  Jón Erlingur, bróðir minn, hefur nú farið sína síðustu ferð en skilur eftir sig minningar og þær allar góðar. Hans góðlyndi, glöggskyggni og æðruleysi gerði sporin léttari í þessari 35km göngu í snjó og að miklu leyti í myrkri og hefur orðið mér dýrmætt veganesti.

 

13428036_10154146517881203_4529648914712052986_n
Hjálmavík

Sigtryggur Þorláksson skrifar eftir minni, desember 2016

 

 

Það var gott veður þennan janúardag. Loft var þungbúið en frostlaust um morguninn og alveg logn. Ég sem þetta skrifa hirti ærnar hér á Svalbarði þennan vetur. Þær voru hafðar við sjóinn. Þar var fjárborg sem þær gátu farið inn í ef versnaði veður. Þar var þeim gefið hey í vondum veðrum annars síldarmjöl. Þennan dag var ekki mikill snjór og gott til jarðar. Með mér var á fengitíð Hjalti Jóhannesson í Flögu, unglingur. Við fórum af stað með hest og sleða og fluttum síldarmjölið með okkur. Vegalengdin er um fjórir kílómetrar. Við gáfum ánum síldarmjöl og svo rak ég þær til beitar inn á Tófuöxl, sem er dálítið sunnan við þjóðveginn. Þar skildi ég við þær og gerði ráð fyrir að þær yrðu rólegar fram eftir deginum á beitinni. Ég fór svo úteftir aftur en við ætluðum að flytja spýtur frá sjónum upp á mýrarnar þar sem við gætum tekið þær síðar og flutt heim á stórum sleða aftan í jeppanum. Við áttum á þessum tíma svartan forystusauð stóran og krangalegan haustgemling. Sauðurinn var illa geltur og lá á ánum um fengitímann. Það hélt samt ekki við honum.  Þetta var góð forystukind, rólegur og fór vel á undan.  Ég  var rétt nýlega kominn út eftir þegar ég sá hvar sauðurinn kom með ærnar allar í sporaslóð á eftir sér. Ég var ekki ánægður með háttalag sauðarins og mér hrutu nú einhver ljót orð af munni en ákvað að gera ekki neitt.  Féð fór rakleiðis í fjöruna að éta þarann.

Við Hjalti fórum vestur í Sjóhúsavíkina og störfuðum þar við spýturnar. Þetta voru sumpart stór tré og seinlegt verk. Við unnum þarna fram eftir deginum. Það fór að snjóa í logni og hlóð niður bleytusnjó. Allt í einu hvessti af norðvestan og frysti. Þá bjuggumst við til heimferðar, settum dálitla spýta á sleðann. Hesturinn sem við vorum með var gömul rauðskjótt meri, mesti afbragðsgripur bæði til dráttar og reiðar. Við vorum ekki komnir langt þegar veðrið versnaði fyrir alvöru. Þá tókum við sleðann aftanúr og skildum hann eftir, við settum svo á okkur stefnuna eftir vindstöðunni. Þá var veðrið orðið mjög vont – norðvestan hvassviðri og mikil snjókoma. Þegar við vorum komnir alllangt inn á mýrarnar komum við á sleðaslóð sem lá lítið eitt skáhalt á okkar stefnu. Þá var úr vöndu að ráða – áttum við að halda okkar stefnu eða reyna að fylgja slóðinni? Var þetta slóðin eftir okkur frá því um morguninn eða hafði einhver farið þarna um? Mér virtist að við myndum geta fylgt slóðinni en vindstaðan gat hafa breyst. Það varð því úr að við fórum eftir slóðinni. Ég prófaði aðeins að láta Skjónu ráða og virtist mér hún vilja fara eftir stefnunni sem við áður fylgdum, en ég tók af henni ráðin. Þegar við höfðum farið alllangan spöl komum við að svolitlum heykleggja, þá vissi ég upp á hár hvar við vorum. Við vorum þá komnir vestur yfir Svalbarðsá neðan við Sjóarland. Það lá girðing þarna upp yfir flóann alveg heim að bæ, svo að það var ekki vandi að rata þennan spöl. Okkur var tekið tveim höndum á Sjóarlandi og Skjónu komið í hús. Eftir að við höfðum verið þarna æði tíma tókum við eftir því að það var farið að sjást til lofts. Þá bauðst Leifur bóndi til þess að fylgja mér heim. Það var nýbúið að leggja símalínu þarna á milli bæjanna og við fórum meðfram henni en hún hafði ekki verið tengd, þannig að síminn var ekki virkur. Hjalti varð eftir á Sjóarlandi svo og Skjóna.

Þegar ég kom heim kom í ljós að bræður mínir, Vilhjálmur þá 15 ára og Jón Erlingur þá 22 ára, höfðu farið að leita að okkur. Þeir bræður komu heim eftir háttatíma og sögðu þær fréttir að Björn í Flögu hefði ekki komið heim með féð um daginn. Þeir fóru aftur seinna um nóttina til leitar.  Ég fór um morguninn út að sjó og gaf ánum í borginni en þær voru þar allar með tölu þökk veri forystusauðnum. Aðkoman var ekki skemmtileg. Það hafði fennt inn um allar rifur og göt. Það var því snjóþekja yfir heyinu í hlöðunni og kindunum.

Þegar ég var búinn að gefa fór ég austur með sjónum austur að Flöguborginni, sem er rétt vestan við Sandána, til þess að athuga hvort Björn hefði komið þar en engin ummerki fann ég. Ég fór því inn með Sandánni inn í Flögu. Rétt eftir að ég kem þar komu leitarmenn með þær fréttir að Björn væri fundinn andaður rétt vestan við Skerþúfuás, á mónum skammt utan við veginn. Þetta var mikið áfall fyrir hjónin í Flögu. Björn heitinn var bóndaefnið og var að taka við búinu.

Leitarmenn tóku hest og sleða til þess að sækja líkið. Ég varð þeim samferða. Mér virtist Björn heitinn hafa fallið afturyfir sig, hafði verið að pissa og var ekki búinn að loka buxnaklaufinni og hafði ekki sett á sig vettlinginn. Ég dró þá ályktun að hann hefði orðið bráðkvaddur. Fjártíkin hans var hjá honum, hún fylgdi honum síðan til grafar og sat við gröfina þegar allir voru farnir. Hún var sótt um kvöldið.

Ég hefi oft hugsað um það að þarna varð ég var við vit skepnanna. Fyrst var það forystusauðurinn, svo Skjóna og síðar fjártíkin hans Björns sem var lítil, strútótt og íslensk.

 

Smá viðbót frá Vilhjálmi:

Vorið eftir í maí ´49, en þá var mjög snjóþungt miðað við síðustu ár á undan, fór ég á einum degi frá Húsavíkurkaupstað í Svalbarð einsamall eftir að hafa tekið prófið inn í 2.bekk í MA. Fór í morgunsárið frá Húsavík gangandi yfir Tunguheiði og fygldi þar símalínu. Síðan fékk ég bílfar austur yfir Kelduhverfi og Axarfjörð að Sandfellshaga, en Sigurður bóndi skutlaði mér upp fyrstu brekkurnar og gekk ég síðan alla leið í Svalbarð. Fann ég aldrei til neins kvíða á þessari 50km göngu í frekar þungri færð og slæmu skyggni á báðum heiðum.

 

 

 

 

 

Advertisements