Það hefur lítið verið að gerast hér á síðunni síðan í apríl vegna anna í sauðburði og verður sagt frá honum síðar. Gestapenni að þessu sinni er Erlingur Sigtryggson, föðurbróðir Einars, en hann kom í heimsókn um daginn og ritaði niður smá pistil um svarðargrafir. Viss um að þið hafið gaman að 🙂
Svarðargrafirnar
Sunnan við bæinn á Svalbarði, niðri við ána, voru svarðargrafir. Fyrir miðja síðustu öld voru þeir að stinga þar upp svörð, synir Þorláks og Þuríðar, langafa og langömmu Einars. Niðri í gröfinni voru Jón Erlingur og Sigtryggur, stungu svörðinn og köstuðu hnausunum upp á bakkann. Þar tóku við Stefán og Vilhjálmur, hlóðu kerru með hnausum og teymdu Brúnku síðan fyrir kerrunni á þurrkvöll.
Heldur veitti grafarmönnum betur, í þeim skilningi að bakkamenn höfðu ekki vel undan. Þótti hinum síðarnefndu það miður, ekki síst þar sem þeir þóttust skynja háð og spott neðan úr gröfinni. Sammæltust þeir um að herða nú róðurinn, hlóðu sem þeir hraðast máttu og hvöttu Brúnku ákaflega. Vannst þeim nokkuð á í fyrstu, en svo fór að grafarmenn skynjuðu hvað fram fór og hertu sig þeim mun meira. Fór svo fram, en á bakkanum var nú lagt á launráð. Þegar komið var úr næstu ferð á þurrkvöllinn var mikill hlaði á bakkanum. Réðust bræður á hlaðann og ruddu honum niður í gröfina. En vitandi það að ,,helvítin“ myndu vaða upp úr gröfinni til hefnda, tóku þeir sem fljótast til fóta. Þá steig Stefán á kvísl sem lá á bakkanum og sneri í móðurætt. Gekk kvíslartindurinn upp úr ristinni. Flutti hann hvorki á þurrkvöll né gekk til annarra verka næstu vikur.
Lauslega endursagt eftir frásögn Stefáns Þorlákssonar.
Gaman að þessu😘
LikeLike
🙂
LikeLike