Einn dagur í lífi bónda

Sigtryggur Þorláksson skrifar eftir minni í febrúar 2017

 

Það var eitt sinn nærri jólum að kona mín segir þegar við vorum að fara á fætur: „Það er stórhríð!“ „Já, er hún nokkuð verri en undanfarna daga?“

„Já“ sagði hún „þarftu nokkuð að fara út að sjónum í dag?“

„Jú ætli ég verði ekki að gera það eins og vant er“ sagði ég. Ég þurfti að byrja á því að fara í fjósið og sinna kúnum. Það var rétt að veðrið var með versta móti, norðan eða norðaustan stórhríð svo að það sá varla í kirkju úr eldhúsglugganum.

17797081_10155020216841203_1261036609_o
Sigtryggur stendur hér á tröppunum við gamla húsið, eldhúsglugginn næsti gluggi við.

En ég hélt mitt strik, fékk mér að borða, kvaddi svo og fór. Fyrst þurfti ég að fara í fjárhús og gefa lömbum og hrútum. Fjárborgin þar sem ærnar voru, var niður við sjóinn um það bil 4 kílómetra frá bænum. Ég hugsaði um kennileiti sem voru á leiðinni. Fyrst var það samkomuhúsið, það var ekki erfitt að finna það, það var svo stutt frá. Næst var það gamli staurinn úti á melnum ofan við tjarnirnar. Þetta var hornstaur sem pabbi girti 1928 þegar hann flutti í Svalbarð. Hann reif gamla girðingu sem mamma átti á Ytri-Brekkum. Efnið var því lélegt og hún stóð ekki lengi. En þessi hornstaur hafði verið nýr og vel frá honum gengið. Hann varð því eftir og haggaðist ekki þótt mikið mæddi á honum, ærnar óku sér við hann, hrútarnir stóðu tímunum saman við hann og börðu hann og hestarnir lögðust á hann með afturendanum og klóruðu sér í taglrótinni. Það urðu hans endalok að hestarnir brutu hann þegar fúi kom í hann við grasrótina.

Það gekk vel að staurnum, ég setti undir mig hausinn og fór bara eftir melbrúninni. Veðrið var beint á móti. Næsta kennileiti var Dilkurinn. Einhverntíma þegar við bræður vorum að sitja yfir ánum á sauðburði hlóðum við þennan dilk. Við hlóðum svona um 1m háa veggi á alla kanta úr torfuhnausum, með dyrum á einni hliðinni. Þarna var svolítið skjól í vondum veðrum og við rákum þarna inn ær sem gekk illa að bera og við þurftum að hjálpa.

Það gekk vel að hitta á dilkinn enda stutt frá staurnum. Næsta örnefni var Stekkjarneshliðið út við ána. Veðrið var alveg beint á móti mér. Þetta gekk allvel að hitta á hliðið á árbakkanum. Rétt utan við hliðið er ofurlítið vik inn í bakkann. Guðjón á Sjóarlandi renndi bátnum inn í þetta vik þegar hann ferjaði séra Pál Hjaltalín yfir ána. Prestur var oft að spyrja fermingarbörnin á sama tíma og við sátum yfir ánum um sauðburðinn í Stekkjarnesinu. Prestur gekk svo árbakkann sem var þurr með smá keldum. Ég held að pabba og presti hafi eitthvað sinnast út af viðskiptum en pabbi keypti af honum 100 ær og ef til vill einhverja búshluti þegar hann flutti í Svalbarð. Prófastur vildi því ekki halda til hjá okkur þótt honum stæði það til boða. Við bræður vorum að reyna að brúa keldurnar svo að prestur kæmist þurrum fótum .

Ég gekk þarna út árbakkann, sem var næstum auður en hríðin magnaðist. Bolalækurinn var á sínum stað fullur af snjó og ekki nein torfæra. Frá Bolalæknum er stutt út að ósnum. Ég fór bakkanna kring óshöfðan og sá vel í Dagmálaskerið. Það er klettur sem er aðeins laus frá landi. Þarna eru dagmál Frá Sjóarlandi. Valldalir eru rétt austan við Óshöfðann. Þar átti Svalbarðskirkja hvalreka. Kirkjur áttu víða ítök. T.d. átti Svalbarðskirkja reka fyrir Flautafellslandi en Flautafell átti hvergi land að sjó.

Þá var ég kominn í Sjóhúsavík. Vestan til í víkinni  er klettur. Uppfrá honum eru tóftir. Sennilega fjárhúsatóftir. Sjórinn gekk yfirleitt upp á gras þarna í víkinni. Ég gekk svo beint úr Sjóhúsavíkinni yfir í Hjálmarsvíkina. Það er stutt og auðfarið þótt veðrið væri vont. Fjárhúsin eru vestast í Hjálmarsvíkinni. Þar var áður fyrri mannmargt býli. Fyrir nokkrum árum var grafið í bæjarhól sem er þarna í miðjum túnbletti. Þar fundu fornleifafræðingar allstóran ruslahaug og fundu þar mannvistaleifar alveg aftur fyrri árið 930, þetta er því gamalt býli. Um 1930 var í víkinni grjótfjara og yfirleitt þykk þarabrúk, en nú er víkin full af sandi og grunn langt út. Þarabrúk myndast samt af og til.

Ég gaf ánum hey eins og til stóð og var frekar fljótur að því. Það þarf ekki að hugsa fyrir vatni handa kindunum í Hjálmarsvíkinni því þar renna smá lækir til sjávar og eru alltaf auðir í flæðarmálinu.

Á milli Hjálmarsvíkur og Sjóhúsavíkur er breiður tangi sem kallast Saurveisutangi þar festir ekki mikinn snjó. Það eru ekki miklar engjar nálægt Hjálmarsvík. Ég lærði vísu þegar ég var lítill:

„Út við sjó einn bóndi bjó

Bulluskó sér þandi

Heyið sló í hundamó

Heim svo dró í bandi“

Mér fannst einhvern veginn að þetta hefði verið bóndinn í Hjálmarsvík.

Heimferðin gekk  vel, þótt hríð væri sú sama bara á hina hliðina og á eftir. En það var gott að koma í húsaskjól til konu og barna. Auðvitað varð ég að fara aftur út í  stórhríðina til þess að gefa seinni gjöfina og brynna lömbum, hrútum og hestum.

 

17837786_10155020216666203_1727366421_o
Sigtryggur Þorláksson við gamla íbúðarhúsið á Svalbarði 6.apríl 2017

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s