Ferðasaga

Ferðasaga

Skrifað upp 15.jan 2017 af Aldísi Gunnarsdóttir, úr verkefnabók Vigdísar Sigurðardóttur frá skólaárum hennar á Löngumýri.

 

Saga sú, er ég ætla að skrifa mætti fremur teljast til útilegusögu, og farið var ríðandi en ekki á bíl, þótt svo sé algengast.

Það var eitt sinn seint í ágústmánuði, að frændi minn sagði okkur krökkunum, að hann skyldi fara með okkur inn að Arnarþúfufossi, ef við yrðum  nú dugleg við heyskapinn þessa viku.  Við gerðum hvað við gátum og höfum víst uppfyllt hans kröfur, því að einn fagran sólskinsmorgunn lögðum við af stað.

            Við vorum vel útbúin af öllu er að gagni mátti koma á slíku ferðalagi og veitti ekki af, að hafa sérstakan hest undir þann flutning. Fórum við greitt og var ekki nema einu sinni dottið af baki, en ekki þótti okkur gott að fara framhjá öllum berjabrekkunum, sem við sáum á leiðinni. Margt sáum við líka fleira: tjarnir þar sem syntu margir fuglar, kindur með lömbin sín og fjallgarðinn, sem alltaf varð breytilegri, eftir því sem innar dró. Þar gnæfir tindur einn hátt, sem nefnist Atlanúpur. Er hann með hamraklettum efst. Fyrir neðan hann eru all sérkennilegar klettaborgir sem nefnast „Hulduborgir“. Er það álit manna að þar búi huldufólk og það sé álfakirkja, sem er raunar stór strýtumyndaður klettur.  Ekki má gleyma að segja frá Ormarsánni sem liðaðist áfram silfurtær, með mörgum hólmum í, þarna fyrir neðan okkur. Í henni er einmitt fossinn, sem við ætluðum að tjalda við. Þegar við komum þangað byrjuðum við á að tjalda í lítilli lægð, þar sem gott skjól er af viðarkjarri. Svo fórum við niður að á og veiddum silung, sem okkur bragðaðist vel á, í kvöldmatinn. Þegar við vorum skriðin niður í svefnpokana um kvöldið, fannst okkur gaman að hlusta á drunurnar í fossinum, sem nutu sín svo vel í kvöldkyrrðinni. Þannig hefur fossinn slegið hörpuna sína öldum saman og oft hefur eflaust af hrifningu verið hlustað á lögin hans. Þarna dvöldumst við í tvo daga. Frændi minn veiddi í ánni bæði lax og silung, en við krakkarnir vorum oftast að tína ber, sem nóg var af þarna.

            Fékk ég að vita af því á heimleiðinni, hvað við höfðum verið dugleg við berjatínsluna, því að kassinn var bundinn á bakið á mér. Þegar heim kom fékk fólkið, sem heima var, auðvitað ber eins og það vildi og svo var soðin saft úr afgangnum.

Svona ferðir út í náttúruna finnst mér mjög skemmtilegar, og mættu þær vera fleiri en er, því að í fjallakyrrðinni er hægt að finna svo margt sem ekki er í þéttbýlinu.


Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s