
Sigtryggur Þorláksson ritaði eftir minni í janúar 2017
Ég mun hafa verið 6 -7 ára þegar okkur bræðrum Jóni Erlingi, sem var tveimur árum eldri, og mér, var falið að reka gemlinga til beitar og standa yfir þeim hluta úr degi. Þetta var á útmánuðum. Veður var gott en þoka. Jörð var allmikið auð og því gott til beitar. Á þessum tíma var reynt að spara hey eins og mögulegt var. Ærnar voru hafðar við sjóinn en lömb og hrútar fóðrað heima. Við fórum með gemlingana eftir hádegið og áttum að reka þá fram fyrir Sjónarhólinn og framundir Þorvaldsstaðaána. Við vorum í ullarnærfötum, ullarsokkum sem náðu upp á mið læri, ullarpeysum, með ullarhúfur og með ullarvettlinga auðvitað. En við vorum í milliskyrtum úr einhverju lérefti og kannski koti (sokkabönd) til að halda uppi sokkunum . Mamma átti prjónavél sem hún prjónaði þessi föt á. Við vorum í gúmmískóm sem búnir voru til úr bílslöngum. Það var maður í sveitinni Sigurður Jakobsson, síðar tengdafaðir minn, sem hafði lært að búa til svona skó. Hann kom og tók mál af fótunum, smíðaði svo tréleistar sem hann notaði til að móta skóna. Hann notaði gúmmí úr vörubílsslöngu í botninn en úr þynnra gúmmíi ofaná. Þetta voru ágætir skór, vatnsheldir og léttir. Það voru settar í þá ullarspjarir. Við höfðum með okkur nesti í vasanum- rúgbrauð smurt með smjöri og mysuosti og mjólkurpela. Allt þetta framleitt heima. Við vorum í vaðmálsyfirhöfn og vaðmálsbuxum stuttum, bara niður á mið lærin.
Gemlingarnir voru ekkert óþægir og við röltum í hægðum okkar í kringum þá. Þeir byrjuðu að beita sér á mónum framan við Sjónarhólinn og þokuðust svo smám saman inneftir Þorvaldsstaðaána. Við bræður vorum mjög samrýndir, sváfum alltaf saman, unnum saman, rifumst aldrei eða flugumst á. Við spjölluðum ýmislegt þarna yfir gemlingunum, reyndum að fylgjast með því hvað þeir voru að éta. Það var fyrst og fremst beitilyngið sem þeir átu, svo sortulyng, krækiberjalyng og bitu yngstu sprotana af fjalldrapanum. Mamma notaði beitilyngið og sortulyngið til þess að lita ullarföt og band. Þessi litur hélst mjög vel þótt fötin voru þvegin. Sortulyngið bar þessu rauðu óætu ber sem við kölluðum Lúsamiðlinga, en heita vafalaust Músamiðlingar af því mýsnar safna þessu sér til vetrarforða. Við fundum þetta oft á milli þúfna, hauga af miðlingum.
Kindurnar eru nú svo vel útbúnar að þær geta rifið í sig á stuttum tíma og lagst svo og tuggið – jórtrað fóðrið í rólegheitum. Þetta hefur komið sér vel þegar dagur var stuttur og allra veðra von. Þegar við vorum búnir að vera þarna æði tíma, að mér fannst, kom það upp að ég var orðinn áttavilltur. Jón reyndi með öllum ráðum að koma fyrir mig vitinu en mér fannst austur vera vestur hvað sem hann sagði. Hann lék það ráð að fara með mig að Þorvaldsstaðaánni og sýna mér hvernig hún rynni. En hvað sem hann sagði þá fannst mér hún renna upp í móti. Þeir piltar þ.e. fullorðnu karlarnir á bænum höfðu farið að sækja hey um morguninn inn að Beitarhúsum, sem voru æði langt inn með ánni. Þeir höfðu farið með tvo hesta og sleða, gátu haft fjóra til fimm bagga á hvorum sleða, baggi = 100pund. Þeir höfðu farið þarna upp með ánni og Jón var að reyna að sýna mér slóðina eftir hestana þar sem þeir hefðu farið þarna upp með ánni. Ég man að ég sagði ekki neitt en mér fannst þetta snúa allt öfugt. Gemlingarnir voru nú farnir að leggjast og jórtra, svo að við sáum að það væri kominn tími til að fara heim. Ég lét auðvitað Jón ráða hvert við fórum og áttaði ég mig svo þegar við komum út fyrir Sjónarhólinn og sáum heim. Þá var eins og allt snérist við aftur í hausnum á mér. Þetta atvik hefur setið í mér alla tíð. Ég skammaðist mín fyrir þessa vitleysu en ég varð fyrir þessari sömu vitleysu aftur síðar á ævinni en var þá orðinn þroskaðri og gat rétt mig af án vandræða.