Um heimahagana

Um daginn rakst ég á gamla verkefnabók í eigu Vigdísar Sigurðardóttur, ömmu Einars, frá því hún var á Löngumýri. Þar á meðal var þessi ritgerð um heimahagana sem mér fannst svo skemmtileg að ég skrifaði hana upp og kom til Dísu. Hún var svo indæl að leyfa mér að deila henni með ykkur. Dísa er frá Ormarslóni, sem er rétt hjá Raufarhöfn en tilheyrir Svalbarðshrepp. Myndin sem fylgir er fengin af síðunni: Raufarhofn.net .

ormarslon

Um heimahagana

(Skrifað upp 15.jan 2016 af Aldísi Gunnarsdóttur, úr verkefnabók Vigdísar Sigurðardóttur frá skólaárum hennar á Löngumýri.)

Heim! Það er undarlegt hve það orð býr yfir miklu seiðmagni og þó ekki, þegar um það er nánar hugsað. Mér finnst ekkert eðlilegra, en við elskum þann stað, þar sem við uxum upp og lærðum að skilja allt það undurfagra, sem náttúran hefur að geyma. Það er gaman að vera úti, uppi í fjallshlíðinni og horfa vítt yfir hafið, stundum á sumrin eru þar mörg skip að veiða síld og ber þá reykinn úr verksmiðjunni á Raufarhöfn við loft.  Einnig sé ég nokkuð marga bæi á Sléttunni og þar eru mörg vötn, sem sjást greinilega af fjallsbrúninni.

Svo sé ég ána. Í henni eru margir hólmar, hún er grunn og hef ég oft vaðið hana. Á vorin er dálítið um fugla á henni, þótt mest beri á kríunni sem hópar sig þar á sandeyri við árósinn. Hún verpir á höfða einum þar skammt frá, og hefur stundum verið  all nærgöngul, þegar ég hef gengið kríuvarpið. Þarna er líka fuglabjarg, en ég er ákaflega lofthrædd og þori því aldrei tæpast fram á brúnina.

Af höfðanum sé ég „Borgartúnið“, sem er rétt þar fyrir neðan. Þar höfum við kindurnar í fjárborg á veturnar. Á þessu túni eru mörg tóftarbrot og dokkir og hár hóll. Fylgir þessu sú munnmælasaga, að þarna hafi verið fjárborgir fyrrum. Þær hafi verið færðar svona oft úr stað, því að þá hafi átt að reka hval í fjöruna fyrir neðan.

Engar sönnur veit ég á þessu, en þarna eru nokkur hvalbein hvít og skinin. Afi man samt ekki til, að hann hafi heyrt um að hval hafi rekið á Ormarslóni, svo að þessi bein hafa komið þarna fyrir hans tíð.

Við skulum halda frá borginni heim að bænum. Það er um 20 mín. gangur. Í mýrinni eru tveir plankar lagðir yfir keldu svo að við blotnum ekki. Þeir eru orðnir nokkuð gamlir , hafa alltaf verið á sínum stað, síðan ég man eftir og oft hafa þeir forðað mér frá því að blotna í fæturna. Á holtinu skammt frá er stór steinn, nefndur Klaustursteinn. Þar álíta menn að huldufólk sé. Við þennan stein hafði ég búið mitt, þegar ég var lítil. Þaðan var líka  svo stutt að fara upp í Urðarásinn. Það er hár ás með klettableti efst. Þar í brekkunni er alltaf nóg af berjum á sumrin. Við ætluðum víst heim að bænum en ekki upp í óbyggðir, svo að best er að halda frá steininum um hliðið og inn á tún.  Það er nú allt orðið slétt, allar gömlu þúfurnar horfnar. Ég sé eftir þeim í aðra röndina, þótt þær megi fara frá búskaparlegu sjónarmiði. Við göngum eftir litla götuslóðanum, sem hefur myndast þegar farið er í fjósið á sumrin, og heim að húsinu. Við berjum að dyrum og hundarnir gelta.

Amma kemur út, en nú er þetta alveg eins og fyrrum þegar ég var að gabba ömmu, til að láta á sig hreina svuntu og álíta að gestur væri kominn.

Við erum bara komnar heim í huganum. Ég fer oft heim í huganum, því að enginn staður er mér jafn kær og ég veit að svo verður aldrei. Ég man, er ég fór í fyrsta sinn að heiman til þess að dvelja heilan vetur á Akureyri. Ég var 15 ára. Við fórum sjóveg til Raufarhafnar. Rökkrið var að færast yfir og við mér blöstu allir þessir kæru leikstaðir mínir í kvöldkyrrðinni.

Ég hef aldrei séð Ormarslón fegurra en þá og ég fann að ég yrði að koma heim aftur.

Guð blessi ástkæra heimilið mitt.


Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s